Fræðsluátak um starfsþróun í þágu menntunar fyrir alla
Ath. Samspil 2018 lauk í upphafi árs 2019 en allt efni tengt átakinu er aðgengilegt hér á vefnum.
Hvar: Á netinu, og með tveimur stuttum fræðsludögum á 6 stöðum á landinu (sjá neðar)
Tími: Nóvember, 2018 – febrúar, 2019
Kostnaður: FRÍTT FYRIR ALLA!
Fyrir hvern: Alla sem koma að skóla- og fræðslustarfi á öllum skólastigum um allt land.
Hver stendur fyrir Samspili 2018: Menntamiðja og Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og stýrihópur um úttekt á menntun fyrir alla. Einnig koma að verkefninu fjöldi sérfræðinga, fræðimanna og reynslubolta úr skólum og víðar.
Hvað er Samspil 2018?
Samspil 2018 er starfsþróunarátak þar sem blandast saman fræðsla, samstarf og samnýting þekkingar og reynslu þeirra sem starfa í skólum í skemmtilegu og aðgengilegu námsumhverfi. Fræðsla fer að mestu fram á netinu og þátttakendur fá að kynnast því hvernig samfélagsmiðlar og tengslanet stuðla að uppbyggilegri og áframhaldandi starfsþróun.
Hver eru markmið Samspils 2018?
Markmið Samspils 2018 er að þátttakendur fræðist um starfsþróun og nýjar kennsluaðferðir og námstækni fyrir fjölbreytta nemendahópa um leið og þeir taka þátt í að byggja upp öflug og kvik starfssamfélög skólafólks á netinu og í raunheimum.
Byggt er á aðferðum sem sönnuðu gildi sitt í Samspili 2015 sem náði til um 350 manns um allt land. Enn má sjá afrakstur Samspils 2015 í menntabúðum sem haldin eru víða um land, gagnlegum Facebook hópum þar sem kennarar og annað starfsfólk skóla skiptast á reynslu og þekkingu, sívaxandi samskiptum skólafólks á #menntaspjall á Twitter, og fleiru. Meðal efnis sem verður tekið sérstaklega fyrir eru:
- Starfssamfélög á netinu.
- Starfsþróun á samfélagsmiðlum: Tenglsanetið, samskipti á samfélagsmiðlum, samstarf á netinu og kynningar á nýjustu tækjum og tólum netheima.
- Hópvinna, hópefli og miðlun reynslu og þekkingar: Aðferðir til að stuðla að miðlun og notknu þekkingar og reynslu í starfssamfélögum til þróunar og nýsköpunar.
- Menntun fyrir alla: Skipulagning náms fyrir fjölbreytta nemendahópa, notkun tækni í námi með fjölbreyttum nemendahópum, “Algild hönnun fyrir nám” (e. Universal Design for Learning), upplýsingaveitur og tækifæri fyrir áframhaldandi fræðslu.
Fyrir hvern er Samspil 2018?
Styrkur Samspils liggur ekki síst í fjölbreyttum hópi þátttakenda og ólíkum sjónarhornum á skóla- og fræðslustarf. Meðal þeirra sem Samspilið ætti að höfða til eru:
- Starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla.
- Starfsfólk tónlistarskóla og annarra listaskóla.
- Starfsfólk frístundaheimila og tómstundamiðstöðva.
- Og öllum þeim sem koma að skóla- og fræðslustarfi með einhverjum hætti.
Hvernig fer Samspil 2018 fram?
Þátttakendur í Samspili 2018 mæta á tvo stutta fræðsludaga sem verða haldnir á 6 stöðum á landinu. Önnur fræðsla fer fram á netinu og samfélagsmiðlum.
Fræðsludagarnir verða:
- 7. nóvember, 2018. kl. 16.15-17.45. (Ath. á Neskaupstað verður fyrsta útspilið 14. nóv.)
- 28. nóvember, 2018. kl. 16.15-18.30 (Fræðsla stýrð frá Reykjavík um netið.)
Fræðsludagarnir fara fram á eftirfarandi stöðum:
- Reykjavík
- Akranesi
- Ísafirði
- Akureyri
- Neskaupstað
- Selfossi
Fræðsla á netinu samanstendur af stuttum myndskeiðum á netinu, 3-4 vefmálsstofum (hver ca. 30 mín), samskipti í Facebook hópum og á Twitter, samskipti á öðrum samfélagsmiðlum sem verða kynntir á fyrsta fræðsludeginum.
Á meðan á átakinu stendur munu þátttakendur vinna hópverkefni tengd starfsþróun eða menntun fyrir alla. Í lok átaksins miðla hópar verkefnum sínum á netinu og samfélagsmiðlum til að gagnast öðrum og stuðla að áframhaldandi þróun í samstarfi við aðra í menntasamfélaginu.